Ég á vinkonu sem er mér mjög hjartfólgin, hún er alveg yndisleg og góð manneskja. Ég er búin að þekkja hana í nokkur ár og vorum við að vinna saman í næturvinnu og léttum hvor annari lífið þar. Hún er um tvítugt, ófrísk og vorum við tvær sammála um að hún gengi með stelpu. Hana og unnustann hennar hlakkaði svo rosalega til að eignast fyrsta barnið og var hún hamingjusamari en ég hef séð hana lengi. Hún hreinlega glóði! Ekki var lífsgleðin minni í unnustanum og var hann að gera hana brjálaða stundum með áhuga sínum!
Þessi vinkona mín hringdi í mig í dag og þegar ég spurði hana hvernig hún hefði það þá fór hún að gráta.....
Ég get ekki lýst líðaninni minni þegar ég heyrði í henni gráta en vissi að eitthvað mikið hlyti að vera að.
Þegar hún var búin að jafna sig nóg til að tala segir hún lágri röddu : "Ég er búin að fæða stelpuna"........
Þessi setning hefði átt að gleðja en hjartað í mér stoppaði og margar hugsanir voru á fleygiferð en fyrst og fremst kom hugsunin.....barnið er dáið.
Hún var eingöngu komin á 21 viku og ekki möguleiki að barnið gæti lifað. Hún sagði að á 24 viku hefði verið smá möguleiki.
Hún byrjaði að fá samdráttarverki og var farið í hvelli með hana sjúkrahúsið en það gekk ekki að stoppa fæðinguna og útvíkkunin komin í fullt.
Hvað gerir maður þegar svona gerist? Ég hef misst ástvin en þetta er annað. Þetta er barnið þeirra, littla gullið þeirra!
Mig langar að gera eitthvað fyrir hana, eitthvað sem gæti hjálpað henni, eitthvað sem lætur hana líða vel þó ekki sé nema smástund, eitthvað áþreifanlegt sem hún getur gripið í eða litið á og þegar sorgin verður of mikil.
Auðvitað er ég hérna og hún veit að hún getur alltaf haft samband þegar hún þarf þess, en maður er ekki alltaf tilbúin að hitta einhvern eða tala við einhvern.
Kannski er ósmekklegt af mér að skrifa þetta og setja hérna.
Ég geri það samt með besta ásetningi.
Lífið er brothætt og maður veit ekki hver fer næstur.
Ekki fara reið að sofa, kannski kemur ekki morgundagurinn.
Elskið hvort annað og segið það en ekki bara hugsa það.
Ég var reið Sigga daginn sem hann dó, hann svaraði nefnilega ekki símanum þegar ég hringdi. Ég reyndi að hringja í hádeginu í hann og eftir 2 hringingar var slökkt á gsminum. Þegar líða tók á daginn varð ég pirraðari, sérstaklega þegar klukkan nálgaðist 18:00 og ennþá hafði hann ekki kveikt á gsminum og ennþá var hann ekki búinn að hringja. Hann ætlaði nefnilega að vera kominn til mín milli 16:00 og 17:00.
Ég var vægast sagt reið útí hann og þegar mamma ýtti á mig að fara bara uppeftir til hennar, þá fór ég og hugsaði, "jæja, þá kemur hann bara að tómri íbúð".
Ég var nýlega sest niður heima hjá mömmu þegar ég fékk hræðilegasta símtal sem hægt er að fá. Siggi var dáinn og heimurinn hrundi.
Þegar ég var að hringja í hann um hádegið þá var hann ný fallinn niður eða kannski féll hann niður þegar hann tók símann upp? Hann stóð ekki upp aftur og sögðu læknar að hann hefði verið dáinn áður en hann lenti á gólfinu. Allar björgunartilraunir voru árangurslausar.
Ég vildi að ég hefði sagt "ég elska þig" þegar ég kvaddi hann kvöldið áður. Ég vildi......Ég vildi...... endalaus "ég vildi" og "ef"
Ég reyni hugga mig við það að hann vissi að ég elskaði hann.
Stundum er það samt ekki nóg.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home